Fyrirtækið Oculis ehf. hlaut nýlega fjármögnun frá tveimur íslenskum fjárfestingarsjóðum. Fyrirtækið var stofnað árið 2003 og þróar tækni og lyf sem eiga að auðvelda meðhöndlun augnsjúkdóma til muna.

Oculis ehf. er íslenskt lyfjafyrirtæki sem ætlar sér að lækna erfiða augnsjúkdóma með einföldum augndropum. Fyrirtækið var stofnað árið 2003 af Dr. Þorsteini Loftssyni og Dr. Einari Stefánssyni, en þeir hafa báðir hlotið alþjóðlegar viðurkenningar á sviði lyfjafræði og augnlækninga.

Árið 2007 gerðu þeir mikilvæga uppgötvun, sem leysti ýmsar takmarkanir við framleiðslu augndropa og myndaðist þá frekari grundvöllur fyrir áframhaldandi rannsóknir. Fjárfestingafélögin Brunnur Ventures og Silfurberg, fjárfestu svo nýlega í Oculis, en markmiðið er að ráðast í frekari sókn, sækja um fleiri einkaleyfi, þróa lyfin og koma þeim á markað.

Framkvæmdarstjóri fyrirtækisins er Páll Ragnar Jóhannesson, en hann hóf störf hjá félaginu eftir að hafa starfað í fjölmörg ár í bankageiranum. Í samtali við Viðskiptablaðið sagði hann að augnlæknar hafi hingað til trúað því að ekki sé hægt að nota augndropa til þess að meðhöndla sjúkdóma í aftari hluta augans.

„Lyfjaþróun til meðhöndlunar á sjúkdómum í afturhluta augans hefur hingað til byggst fyrst og fremst á þróun nýrra sprautumeðferða, en okkur er ekki kunnugt um neitt annað fyrirtæki sem sýnt hefur fram á með sama hætti burði til þess að koma lyfjum til afturhluta augans með augndropum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki fær til liðs við sig sterkan erlendan fjárfesti.
  • Vogunarsjóðsstjóri leitar færis í niðursveiflum og segir seðlabanka rót alls ills.
  • Rætt um nauðsyn varkárni í ríkisútgjöldum til ársins 2021.
  • Haraldur Þórðarson, framkvæmdastjóri Fossa Markaða hf, er í ítarlegu viðtali.
  • Umdeild samningsákvæði í samningum bankanna við frumkvöðla.
  • Enn er lagaleg óvissa um stjórn Vinnslustöðvarinnar.
  • Fjárfestingarsjóður vill fjárfesta í íslenskri verslunarkeðju.
  • Nýráðinn starfsmannastjóri Seðlabankans hefur trú á að hægt sé að skapa starfsánægju hjá hinu opinbera.
  • Íslenskt sprotafyrirtæki hjálpar erlendum skiptinemum að finna húsnæði.
  • Ævintýraleg veiðiferð sem fara þurfti á hestbaki.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um ókeypis tannlækningar.
  • Óðinn fjallar um hugmyndafræðilegt gjaldþrots Thomas Piketty.