*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 28. september 2018 19:11

Áður óþekkt tækifæri

Framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar segir að miklum breytingum fylgi fjölmörg tækifæri.

Ritstjórn
Magnús Kristinn Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar.
Haraldur Guðjónsson

Nasdaq verðbréfamiðstöð stendur frammi fyrir miklum breytingum á rekstrinum sem munu að sögn Magnúsar Kristins Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, skapa fjölmörg tækifæri fyrir íslenskan fjármálamarkað í náinni framtíð.

Nasdaq verðbréfamiðstöð hefur gefið út og skráð rafrænt verðbréf á íslenskum verðbréfamarkaði í tæpa tvo áratugi með góðum árangri og þar af verið seinasta áratug í eigu Nasdaq Inc., sem á og og rekur NASDAQ kauphallir á 26 mörkuðum og tvær verðbréfamiðstöðvar, svo eitthvað sé nefnt.

Magnús Kristinn segir að rekstur fyrirtækisins hafi gengið vel síðustu ár. „Starfsumhverfi verðbréfamiðstöðva var lengi vel stöðugt en á undanförnum árum hafa þónokkrar breytingar orðið á umhverfinu með tilkomu aukins regluverks og krafna varðandi gæði og öryggi þjónustunnar. Nasdaq verðbréfamiðstöð stendur frammi fyrir miklum breytingum á rekstrinum sem munu skapa tækifæri fyrir íslenskan fjármálamarkað,” segir hann.

Fyrirtækinu verður umbylt

Þið munið sækja um starfsleyfi á grundvelli nýrrar Evrópureglugerðar um verðbréfamiðstöðvar sem innleidd verður í lög hérlendis á næstunni – hvernig miðar þeirri vinnu og hvað mun það þýða fyrir ykkur að fá slíkt leyfi?

„Á grundvelli CSDR-reglugerðarinnar (Central Securities Depository Regulation) þurfum við, líkt og allar aðrar verðbréfamiðstöðvar í Evrópu, að sækja um nýtt starfsleyfi. Við erum með í undirbúningi að umbreyta fyrirtækinu gjörsamlega – allir innviðir verða teknir upp, nýtt uppgjörskerfi tekið í notkun og þjónusta aukin í kjölfarið. Við erum með í undirbúningi að innleiða nýtt verðbréfamiðstöðvakerfi sem mun gera okkur kleift að bjóða viðskiptavinum okkar fjölbreyttari og betri þjónustu.”

Magnús Kristinn segir að til að mæta kröfum regluverksins verði sótt í reynslu innan Nasdaq, en Nasdaq starfrækir m.a. verðbréfamiðstöð í Lettlandi sem var fyrsta verðbréfamiðstöðin innan Evrópu til að hljóta nýtt starfsleyfi á grundvelli regluverksins. „Með heimild í CSDR munum við sameinast í nóvember 2019 verðbréfamiðstöð Nasdaq CSD í Eystrasaltslöndunum, með höfuðstöðvar í Lettlandi, og starfrækja hérlendis Nasdaq verðbréfamiðstöð sem útibú sem þjónustar íslenska markaðinn. Þetta gerir okkur kleift að nýta til fullnustu þá þekkingu og reynslu sem er til staðar innan samstæðunnar og vera beinir þátttakendur í að byggja upp verðbréfamiðstöð Nasdaq í Evrópu.”

Ný samkeppni hvetjandi

Fyrr á þessu ári tók til starfa hérlendis fyrirtæki sem herjar á þann markað sem þið hafið starfað á seinustu tvo áratugi – hvernig leggst samkeppnin í ykkur og breytir hún einhverju fyrir starfsemina?

„Samkeppni mun einungis verða til þess að við gerum betur í okkar starfi. Þetta heldur okkur á tánum,” segir Magnús Kristinn. „Við teljum að við séum með og verðum með afbragðs vöru og þjónustu sem verður mjög samkeppnisfær á markaði, bæði hér og erlendis. Við mætum samkeppni með því að tryggja fagmennsku í vinnubrögðum og bættu þjónustuframboði. ”

Hann segir að andspænis hinum mörgu fyrirliggjandi verkefni skipti gífurlega miklu að vera hluti af alþjóðlegri samsteypu með víðtæka reynslu af rekstri og starfsemi innviða á fjármálamarkaði. „Við ætlum okkur að vera hluti af framtíð Nasdaq CSD í Evrópu og höfum því tekið þá ákvörðun að sameina fyrirtækið inn í þá starfsemi. Með því teljum við að tryggt sé að við getum þróað þjónustu okkar áfram í takt við þær breytingar sem eru að eiga sér stað í umhverfinu. Með innleiðingu á nýju verðbréfamiðstöðvakerfi og sameiningu við Nasdaq CSD munu skapast áður óþekkt tækifæri fyrir íslenskan verðbréfamarkað.”

Magnús Kristinn segir að allt umhverfið muni breytast með nýju kerfi og innviðum hvað varðar uppgjör og frágang viðskipta á markaði fyrir innlenda sem erlenda aðila, en fyrra fyrirkomulag hafi m.a. hamlað að einhverju leyti innkomu erlendra fjárfesta.

„Ástæðuna má að stóru leyti rekja til þess að uppgjör og frágangur verðbréfaviðskipta hér á landi hefur verið framkvæmt á grundvelli séríslensks verklags sem erlend fjármálafyrirtæki telja að feli í sér óásættanlega áhættu með tilheyrandi kostnað,” segir hann. „Erlendir fjárfestar munu nú ganga að umhverfi sem þeir þekkja og verður hægt að gera upp í öðrum myntum eins og evru og jafnvel fleirum með samtímis afhendingu peninga á móti verðbréfum í gegnum verðbréfamiðstöð, sem ekki hefur verið hægt hingað til. Þarna er um að ræða mikilvæga framþróun fyrir heilbrigði markaðarins.”

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.