Þessa dagana stendur yfir almennt hlutafjárútboð á bréfum Hampiðjunnar, sem í kjölfarið verður skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar á ný eftir sautján ára viðveru á First North hliðarmarkaðnum.

Tilefnið er fyrst og fremst yfirtaka félagsins á norsku samstæðunni Mørenot sem samningar náðust um síðastliðinn nóvember og gekk endanlega í gegn í febrúarbyrjun. Samningaviðræðurnar sem til þess leiddu voru hins vegar ekki fyrsta tilraun Hampiðjunnar eða Hjartar Erlendssonar, forstjóra félagsins til á tíunda árs, til að kaupa Mørenot.

Hjörtur hefur að eigin sögn lengi haft augastað á Mørenot, en Hampiðjan reyndi fyrst að kaupa félagið árið 2017. Í það skiptið rann Mørenot Hampiðjunni hins vegar úr greipum þegar seljendurnir ákváðu að selja til norsks framtakssjóðs að nafni FSN Capital eftir langt og strangt söluferli sem Hampiðjan tók þátt í ásamt fleiri áhugasömum aðilum.

„Í þeim ráðahag fólust hins vegar engin tækifæri til samlegðaráhrifa þar sem sjóðurinn var ekki með fyrirtæki í skyldum rekstri í eignasafni sínu. Reynt var að skapa eigin samlegð með því að kaupa önnur fyrirtæki og leggja inn í samstæðuna. Það náðist að auka veltuna umtalsvert en framlegðin úr rekstrinum lækkaði töluvert,“ segir hann.

„Væntingar stóðu til að velta fyrirtækisins myndi aukast verulega á fáeinum árum. Til þess að standa undir þeim vexti var talið nauðsynlegt að byggja upp fyrirtækið, meðal annars með því að auka umfang yfirstjórnar þess mikið. Þetta er eitt af því sem við erum að vinda ofan af í dag,“ útskýrir Hjörtur en á dögunum var greint frá því að starfslokasamningar hefðu verið gerðir við bæði forstjóra og fjármálastjóra Mørenot sem munu vinna í ákveðinn tíma með stjórnendum Hampiðjunnar til að tryggja að yfirtakan gangi vel fyrir sig. Stöður þeirra munu síðan í framhaldinu verða lagðar niður.

„Undir eignarhaldi FSN voru gerðir margir góðir hlutir innan Mørenot einkum er varðar stjórnun og skipulag, tölvukerfi og umhverfismál. Þeir eru fagmenn í því að kaupa fyrirtæki og snúa þeim á rétta braut hvað þetta varðar, og eru búnir að gera það mjög vel og vandlega með Mørenot. Að því leyti erum við að taka við mjög góðu búi.“

Nánar er rætt við Hjört um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út nú í morgun.