Akureyrarbær hefur keypt tíma- og viðveruskráningakerfið VinnuStund frá Advania. Hjá bænum vinna rúmlega tvö þúsund manns. VinnuStund heldur utan um tíma-, viðveru- og fjarvistaskráningar starfsmanna og nýtist til að skipuleggja vinnutíma þeirra. Ekkert hefur verið gefið upp um kaupverðið.

Í tilkynningu frá Advania er haft eftir Margréti Tryggvadóttur, starfsmannastjóra Akureyrarbæjar, að við innleiðing VinnStundar auðveldi launavinnslu og launaútreikninga. „Ávinningur okkar felst í að stjórnendur fá bætta yfirsýn yfir viðveru og fjarveru starfsmanna og starfsmenn fá greiðan aðgang að ýmsum upplýsingum sem nýtast þeim vel,“ segir hún.

VinnuStund verður beintengt við SAP-mannauðs- og launakerfi bæjarins og felur innleiðingin í sér aukna sjálfvirkni í launavinnslu.

Á myndinni hér að ofan má sjá glaðbeitta fulltrúa Akureyrarbæjar og Advania skrifa undir samning um kaup og innleiðingu bæjarins á tímaskráningakerfinu VinnuStund. Frá vinstri: Helgi Magnússon forstöðumaður hjá Advania, Gestur G. Gestsson forstjóri Advania og eftirtaldir starfsmenn Akureyrarbæjar: Kristjana Kristjánsdóttir verkefnastjóri viðverukerfa og þjónustulausna, Jóhanna Bára Þórisdóttir verkefnastjóri mannauðsmála, Jón Stefán Baldursson verkefnastjóri viðverukerfa og þjónustulausna, Halla Margrét Tryggvadóttir starfsmannastjóri og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrarbæjar.