Tæknifyrirtækin Advania og GreenQloud hafa samið um að Advania bjóði viðskiptavinum sínum skýjalausnir GreenQloud í sjálfsafgreiðslu í gegnum viðmót og greiðslukerfi Advania.

Haft er eftir Bala Kamallakharan, framkvæmdarstjóra GreenQloud, í tilkynningu að samstarfið muni styrkja stöðu GreenQloud á íslenska markaðinum, í Skandinavíu og víðar ásamt því að gera Advania kleift að bjóða uppá fjölbreyttari skýjalausnir en áður. GreenQloud var formlega stofnað í byrjun árs 2010 og fer ört stækkandi. Fyrirtækið þjónustar nú viðskiptavini frá yfir 80 löndum ásamt því að vera með starfsemi á Íslandi, í Hollandi, Bandaríkjunum og Brasilíu.

Fram kemur í tilkynningu um samninginn að GreenQloud er fyrsta tölvuský heims sem er eingöngu knúið endurnýjanlegri orku. Í þessu tölvuskýi geta fyrirtæki fengið aðgang að tölvukerfi í áskrift. Þetta felur í sér auðveldan og hagkvæman aðgang fyrirtækja að tölvuþjónustu hverskonar án þess að þurfa að fjárfesta í búnaði. Tölvukerfi GreenQloud er að stórum hluta hýst í gagnaveri Advania.

„Það er okkur sönn ánægja að vinna með vaxandi sprotafyrirtæki eins og GreenQloud en það fyrirtæki hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir snjallar og umhverfisvænar lausnir. Í gegnum þessa þjónustu gerum við viðskiptavinum okkar enn auðveldar að hagnýta öflug tölvukerfi á þeirra eigin forsendum eins og þeim hentar, hvar og hvenær sem er í veröldinni. Við sjáum fyrir okkur að þessi lausn henti sérstaklega fyrir ný fyrirtæki í hröðum vexti,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri rekstrarlausna Advania, í tilkynningu.