Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, segir að það hafi ekki verið ákveðið hvenær fyrirtækið hyggist sækjast eftir skráningu á markað. Það sé misskilningur að tímasetning skráningar hafi verið ákveðin.

Hins vegar sé alveg ljóst að með núverandi eigendum sé það yfirlýst markmið félagsins að skrá sig á markað. „Á endanum er það náttúrulega alltaf eigendaspurning, hvort menn vilji skrá sig eða ekki. En við sem stjórnendur störfum samkvæmt því að félagið eigi frá einum tíma til annars að vera tilbúið til skráningar,“ segir Gestur.

Aðspurður segir hann að það sé jafn líklegt eins og það er ólíklegt að Advania verði skráð á markað á næsta ári. Það fari eftir því hvernig markaðir þróist. Almennt taki skráningar á hlutabréfamarkað um 6-8 mánuði.