Hagnaður Advania nam 247 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er talsverður viðsnúningur á milli ára en fyrirtækið tapaði 580 milljónum á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Advania að heildartekjur á fyrstu sex mánuðum námu 14.178 milljónum króna borið saman við 12.954 milljónir á fyrri hluta síðasta árs. Aukningin nemur 9,4% á milli ára. Rekstrarhagnaður nam 940 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er margföldun á milli ára en á fyrri hluta síðasta árs nam hann 48 milljónum króna.

Um 86% af veltu Advania myndaðist á Íslandi og í Svíþjóð. Reksturinn í þessum löndum hefur verið í góðu jafnvægi og veltuaukning stöðug, að því er segir í uppgjörinu. Veltan nam 6.098 milljónum króna hér á tímabilinu og var það 12% aukning á milli ára. Í Svíþjóð jókst veltan um 6,9% og nam hún 5.692 milljónum króna.

Betri afkoma í Noregi

Í uppgjörinu segir að mikilll viðsnúningur hafi verið á afkomu fyrirtækja Advania í Noregi eftir mjög erfiðan rekstur í fyrra. Þar nam rekstrarhagnaður (EBITDA) 469 milljónum króna. Í fyrra nam tapið þar hins vegar 486 milljónum króna. Umskiptin má rekja til 540 milljóna króna sölu á hugbúnaðarréttindum til stórs viðskiptavinar á tímabilinu, umfangsmikilla skipulagsbreytinga um síðustu áramót og hagræðingar í rekstri.