Fjársýsla ríkisins og Advania hafa undirritað samning um rekstur og hýsingu tölvukerfisins Orra í kjölfar örútboðs sem fram fór á vegum Ríkiskaupa á grundvelli rammasamnings um rekstur og hýsingu tölvukerfa. Þetta kemur fram á vef Ríkiskaupa .

Þar segir að örútboðið hafi náð yfir alla hýsingu og daglegan rekstur á Orra-kerfinu. Tölvukerfið er samheiti yfir ýmis kerfi ríkisins, t.d. fjárhags- og mannauðskerfi auk ýmissa stuðningskerfa sem því fylgja.

„Gild tilboð voru metin í samræmi við lýsingar örútboðsgagna og var það tilboð sem fékk flest stig í yfirferðinni metið hagstæðast og í kjölfarið samið við þann bjóðanda sem átti tilboðið,“ segir í frétt Ríkiskaupa. Samningurinn er til sex ára með heimild til framlengingar um allt að tvö ár.

Töluverður sparnaður hlýst af því að bjóða út hýsingu og rekstur á kerfinu, líkt og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá. Tilboðið frá Advania hljóðaði upp á 7.850.000 kr. á mánuði , en kostnaðaráætlun var 16.000.000 kr. á mánuði án virðisaukaskatts. Þannig hljóðar sparnaðurinn vegna útboðsins upp á 8.150.000 krónur á mánuði.