*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 18. febrúar 2020 10:41

Advania kaupir danskt fyrirtæki

Með kaupunum á upplýsingatæknifyrirtækinu Kompetera getur félagið nú þjónustað öll Norðurlöndin.

Ritstjórn
Haft er eftir Ægi Má Þórissyni forstjóra Advania að með kaupunum geti félagið loks kallað sig sannkallað norrænt fyrirtæki.
Aðsend mynd

Advania hefur keypt danska upplýsingatæknifyrirtækið Kompetera og opnar nú starfstöð í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Eftir kaupin getur Advania nú boðið alhliða þjónustu í upplýsingatækni á öllum Norðurlöndunum, að því er fram kemur.

Kaupin á Kompetera eru sögð liður í að efla starfsemi Advania um öll Norðurlönd, en fyrirtækið hafi sótt fram þar undanfarin ár – með það fyrir augum að veita viðskiptavinum á norrænum markaði betri þjónustu – og geti nú sem fyrr segir boðið alhliða rekstrarþjónustu í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Íslandi og Finnlandi.

„Með starfsemi í Danmörku höfum við náð markmiði okkar um að verða sannkallað norrænt fyrirtæki og nú stefnum við á að byggja ofan á þann 15% innri vöxt sem varð árið 2019. Það er frábært skref fyrir Advania að geta nú boðið upp á alhliða þjónustu á sviði upplýsingatækni á öllum Norðurlöndunum. Ekkert annað félag á þessu sviði getur það. Með kaupum á Kompetera eykst geta og þekking Advania á altækri rekstrar- og skýjaþjónustu til muna og við sjáum mörg tækifæri framundan,“ er haft eftir Ægi Má Þórissyni forstjóra Advania á Íslandi í tilkynningunni.

Framkvæmdastjóri Kompetera, Carstein Weis, segir það „hvetjandi innblástur að verða hluti af svo framúrskarandi fyrirtæki sem Advania er. Með okkar nálgun og staðbundnu þekkingu náum við að fylla í lítið en þó mikilvægt skarð á dönskum markaði. Við erum himinlifandi með þetta tækifæri og hlökkum til bjartrar framtíðar saman.“

Stikkorð: Advania