Advania hefur gert kauptilboð í allt hlutafé sænska upplýsingatæknifyrirtækisins Caperio. Þegar kaupin hafa gengið í gegn mun fyrirtækið verða hluti af starfsemi Advania í Svíþjóð. Kaupin á Caperio  eru í samræmi við stefnu Advania um aukinn vöxt félagsins á Norðurlöndum. Kaupverðið er 158 milljónir sænskra króna eða sem nemur um 2 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Kaupin á Caperio hafa gríðarlega mikil samlegðaráhrif inn í rekstur Advania og munu styrkja okkur í sessi sem eitt af leiðandi fyrirtækjum í upplýsingatækni á Norðurlöndum“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi. „Caperio hefur náð góðum árangri í sölu vélbúnaðar og hafa verið í fararbroddi við að bjóða fyrirtækjum upp á fjölbreyttar fjármögnunarleiðir. Viðskiptavinir Advania á Íslandi munu njóta góðs af þessum kaupum í gegnum hagstæðari innkaup á vélbúnaði og hugbúnaðarsamningum. Við erum mjög spennt fyrir þessu og okkur hlakkar til að taka á móti öflugum hópi starfsmanna Caperio í okkar lið,“ segir Ægir.

Caperio var stofnað árið 2000 og er skráð í Kauphöll í Stokkhólmi. Helsti styrkur fyrirtækisins liggur í sölu tölvubúnaðar og hugbúnaðarleyfa en það sinnir einnig rekstri upplýsingatæknikerfa, skýjalausna og ráðgjafar í upplýsingatækni. Það er mat Advania að mikil samlegðaráhrif séu falin í kaupunum sem muni skila sér í skilvirkari og hagkvæmari rekstri sem og betri og fjölbreyttari þjónustu til viðskiptavina. Kaupin munu styrkja stöðu Advania í Svíþjóð og stækka hóp viðskiptavina fyrirtækisins verulega að því er kemur fram í tilkynningu frá Advania.

„Hjá Caperio starfa um 120 starfsmenn í stærstu borgum Svíþjóðar. Heildartekjur félagsins árið 2016 voru um 956 milljónir sænskra króna eða sem nemur um 11,6 milljörðum íslenskra króna og var EBIDTA það ár 32,9 milljónir sænkra króna  eða sem nemur um 400 milljónum íslenskra króna. Velta Advania í Svíþjóð á síðasta ári var um 10,5 milljarðar íslenskra króna og það er því ljóst að við kaupin munu tekjur félagsins í Svíþjóð tvöfaldast. Beringer Finance var ráðgjafi Advania við kaupin,“ segir í tilkynningunni.