*

miðvikudagur, 21. október 2020
Innlent 6. september 2018 14:05

Advania kaupir Wise

Upplýsingatæknifyrirtækið Advania hefur keypt Wise en hjá því félagi starfa um 80 manns.

Ritstjórn
Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, segir mikil tækifæri felast í sameiningunni.
Aðsend mynd

Upplýsingatæknifyrirtækið Advania hefur fest kaup á hugbúnaðarfyrirtækinu Wise, sem áður var í eigu AKVA group í Noregi. Hjá Wise starfa um 80 manns, en sameinað félag verður með um 700 starfsmenn, þar af 200 sem sérhæfa sig í viðskipta- og framleiðnilausnum Microsoft.

Í tilkynningu frá Advania um málið er haft eftir Ægi Má Þórissyni, forstjóra, að í sameiningunni felist mikil tækifæri.

„Lausnaframboð Wise fellur mjög vel að lausnaframboði Advania og við getum nýtt þekkingu og stærð okkar til að þjónusta fleiri atvinnugreinar. Upplýsingatæknibransinn er að ganga í gegnum miklar breytingar og með sameiningunni sjáum við fyrir okkur að geta stóreflt þjónustu við viðskiptavini, bæði hér á landi og erlendis. Við erum tilbúin í sókn á alþjóðamarkaði og sameiningin styrkir okkur svo um munar í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.“

Þá er Wise sagt einn öflugasti söluaðili landsins á Microsoft Dynamics NAV bókhalds- og viðskiptahugbúnaði, sem hafi sérhæft sig í lausnum fyrir sveitarfélög, sjávarútveg, fjármál og ýmiskonar sérfræðiþjónustu.

Advania sé stærsti söluaðili Microsoft-lausna á Íslandi og líkt og hjá Wise, starfi þar fjölmargir sérfræðingar í Microsoft Dynamics NAV. Með sameiningu fyrirtækjanna verði til eining sem hafi alla burði til að keppa við alþjóðleg fyrirtæki á þessum markaði.

„Wise hefur náð glæsilegum árangri bæði hér heima og út fyrir landsteinana sem er ekki síst að þakka frábæru starfsfólki sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu. Við hlökkum til að fá þau til liðs við okkur. Eftir sameiningu verður Advania með um 200 starfsmenn sem sérhæfa sig í viðskipta- og framleiðnilausnum Microsoft og því með burði til að þróa áfram frábærar lausnir og veita fyrirmyndar þjónustu,“ segir Kristinn Eiríksson, framkvæmdastjóri viðskiptalausna Advania.

Stikkorð: Advania Wise