Advania hefur verið valið „Partner og the Year“ hjá bandaríska fyrirtækinu Xerox, en samstarf fyrirtækjanna hófst fyrir þremur árum síðan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í fyrra fékk norska upplýsingafyrirtækið Atea þennan titil en þar starfa 6.600 manns á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum.

„Þetta er vissulega mikill heiður fyrir okkur hjá Advania en að baki er mikil þróunarvinna,“ segir Elfa Björk Kjartansdóttir vörustjóri prentlausna hjá Advania.

Advania vinnur með Xerox á sviði prentreksturs, Managed Print Services. „Við höfum tekið lausnina frá Xerox og gert hana að okkar. Við leggjum áherslu að við séum með lausn sem skapar viðskiptavinum okkar ávinning, við erum ekki bara að selja prentara. Sem dæmi má nefna þá höfum við unnið mikið með svokallað App Studio frá Xerox og nýtt þær hugbúnaðarlausnir mikið.“ Viðskiptavinir okkar hafa tekið þessum lausnum vel og dæmi um það er samstarf Advania við verkfræðistofuna Mannvit.

Að sögn Elfu hefur Advania fengið beiðnir frá Xerox og samstarfsaðilum Xerox í Danmörku um kynningu á þeirra lausnum. „Þessi titill er mikil viðurkenning fyrir okkur hjá Advania og gefur okkur aukinn kraft í markaðssókn okkar á nýju ári,“ segir Elfa Björk að síðustu.