Afhending á Samstarfsverðlaunum Microsoft ( e. Microsoft Partner Awards ) fór fram síðastliðinn föstudag á Reykjavík Restaurant. Veitt voru verðlaun í fjórum flokkum, auk þess sem tilkynnt var um samstarfsaðila ársins 2019. Einnig voru veitt sérstök hvatningarverðlaun dómnefndar og sömuleiðis sá heiður að prýða heiðursvegg Microsoft. Samstarfsverðlaunin hljóta árlega þau samstarfsfyrirtæki Microsoft sem þykja hafa skarað fram úr á sviði tæknimála, nýsköpunar og notkunar á vöruframboði Microsoft og þannig lagt sitt af mörkum til stafrænnar umbreytingar á íslenskum markaði. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Advania hlaut þann heiður að vera samstarfsaðili ársins annað árið í röð en fyrirtækið er jafnframt stærsti samstarfsaðili Microsoft á Íslandi. Áherslur Microsoft og Advania fara vel saman þar sem horft er til framtíðar með skýjaþjónustu, aukinni sjálfvirkni og gervigreind. Það sé gert til að gera sameiginlegum viðskiptavinum kleift að ná árangri hvert á sínu sviði með hjálp upplýsingatækni.

Metadata hlaut verðlaun í flokknum Efling starfsmanna og að mati dómnefndar gefur þeirra lausn, sem unnin var fyrir Olís, minni fyrirtækjum möguleika á að nýta viðskiptagreind á sama hátt og stórfyrirtæki. Ráðgjafafyrirtækið ExploreCRM hlaut verðlaun í flokknum Þátttaka viðskiptavina fyrir verkefni sem þeir tóku þátt í við innleiðingu á Dynamics365 Sales fyrir Íslandsbanka. Men & Mice sigruðu í flokknum Hagræðing reksturs fyrir skýjalausnaverkefnið Men & Mice Suite sem þótti bera af í þessum flokki að mati dómnefndar. Advania hlaut að lokum verðlaunin Umbreyting vöruframboðs fyrir Advania markaðstorg, en Advania hefur hlotið nokkur alþjóðleg verðlaun fyrir þessa lausn.

Aðalsteinn Valdimarsson hlaut heiðursverðlaun og kemst með því á frægðarvegg Microsoft en Aðalsteinn er einn af stofnendum Landsteina og Rue de Net og nú framkvæmdastjóri K3. Promennt hlaut sérstök hvatningarverðlaun dómnefndar fyrir fræðsluverkefni innan Stjórnarráðsins þar sem kennt var á hugbúnað Microsoft auk þess sem fræðsluský þeirra byggir á Microsoft skýjaþjónustum.

Í dómnefnd sátu Stefanía Guðrún Halldórsdóttir framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, Jarþrúður Ásmundsdóttir framkvæmdastjóri Startup Iceland og Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir forstöðumaður framkvæmda hjá Veitum.