Tap Advania á síðsta ári nam 360 milljónum króna, samanborið við 1692 milljóna króna tap árið á undan. Rekstrarhagnaður Advania samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) árið 2013 nam 1.315 milljónum króna samanborið við 341 milljónir króna á árinu áður. Heildartekjur jukust um 2,5% á milli ára, voru 26,4 milljarðar króna samanborið við 25,8 milljarða króna árið á undan.

„Ársreikningurinn 2013 staðfestir jákvæða þróun í rekstri samstæðunnar. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir jókst umtalsvert á milli ára og heildarafkoman batnaði verulega þó að hún hafi áfram verið neikvæð. Með markvissum aðgerðum hefur rekstri í Noregi verið snúið til betri vegar og sú þróun mun halda áfram. Þá hefur hlutfall erlendra tekna af veltu á Íslandi aukist talsvert á milli ára sem eykur breidd í tekjumyndun Advania á Íslandi. Í því felast tækifæri til vaxtar á þröngum heimamarkaði en rekstrarumhverfi í greininni hefur af ýmsum ástæðum verið erfitt á síðustu árum.“

Hjá Advania starfa um 1000 manns á Íslandi, í Svíþjóð og í Noregi.