Fjárfesta- og stjórnendahópur upplýsingatæknifyrirtækisins Advania og gagnaversfélagsins atNorth högnuðust ríkulega á sölu fyrirtækjanna til annars vegar sjóða í stýringu hjá Goldman Sachs og hins vegar svissneska fjárfestingafélagsins Partners Group. Áætla má að þau hafi samanlagt verið verðmetin á um 100 milljarða króna þegar félögin voru selda á síðasta ári. Advania og atNorth voru aðskilin árið 2017, en voru að stórum hluta í eigu sama eigendahóps.

Vaxið mun hraðar en Goldman ráðgerði

Advania var metið á um 60 milljarða við kaup Goldman Sachs líkt og Viðskiptablaðið greindi frá. Advania var í eigu hóps fjárfesta frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Íslandi sem margir hverjir eru áfram í hluthafahópnum. Frá kaupum Goldman Sachs hefur Advania vaxið á ógnarhraða eftir kaup á tíu fyrirtækjum á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Starfsmannafjöldi Advania hefur þrefaldast á einu og hálfu ári, úr um 1.400 í um 4.500. Velta Advania nam 78 milljörðum árið 2020 en í samfélagsskýrslu félagsins fyrir síðasta ár er áætlað að velta félagsins eftir samrunann verði um 13 milljarðar sænskra króna á ársgrundvelli, um 190 milljarðar íslenskra króna miðað við meðalgengi síðasta árs.

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í ágúst á síðasta ári, að upphaflega hefði Goldman Sachs stefnt að því að umsvif Advania myndu tvöfaldast á 3-4 árum. Í reynd hafi tekið sex mánuði að ná þeim áfanga eftir kaup á norræna tæknifyrirtækinu Visolit. Í desember á síðasta ári keypti Advania fyrsta fyrirtækið í Bretlandi, Content+Cloud, sem eru fyrstu kaup félagsins utan Norðurlandanna.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.