Expectus og Advise hafa undirritað samstarfssamning sem felur í sér að Expectus getur nú boðið viðskiptavinum sínum upp á Advise-lausnina.

Advise Business Monitor er hugbúnaðarlausn á sviði rekstrargreininga í rauntíma sem þróuð er á Íslandi. Lausnin er sérsniðin fyrir stjórnendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja með höfuðáherslu á einfalt notendaviðmót og forsniðnar greiningar. Fleiri en 80 íslensk fyrirtæki nota Advies-lausnina í dag.

Expectus er ráðgjafarfyrirtæki sem aðstoðar íslensk fyrirtæki og stofnanir með gagnadrifnar ákvarðanir. Expectus er með yfir 200 viðskiptavini hér á landi í ráðgjöf varðandi gagnagreiningar og uppsetningu stjórnendamælaborða.

Sindri Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Expectus:

„Við höfum verið að leita að einfaldri og skilvirkri lausn sem styður við ákvarðanir hjá minni fyrirtækjum. Hugbúnaðarlausnin frá Advise er frábær viðbót við okkar vöruframboð og gerir okkur betri í að þjóna þessum hópi viðskiptavina og styðja í átt að auknum árangri."

Mikael Arnarson, framkvæmdastjóri Advise:

„Við erum mjög ánægð með að ganga til samstarfs við Expectus en innan fyrirtækisins er mikil þekking og reynsla í ráðgjöf til fyrirtækja við uppsetningu greininga og stjórnendamælaborða. Fyrirtækin deila sömu sýn um mikilvægi upplýstrar og gagnadrifinnar ákvörðunartöku stjórnenda og er umhugað um að viðskiptavinir nái árangri í sínum rekstri."