*

fimmtudagur, 9. apríl 2020
Fjölmiðlapistlar 28. maí 2019 11:41

Æ sér gjöf til (út)gjalda

Fjölmiðlarýnir fjallar um fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra.

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Heiðar Guðjónsson, hinn opinskái forstjóri Sýnar, var í viðtali við viðskiptakálf Morgunblaðsins á miðvikudag og hafði ýmislegt að segja um Ríkisútvarpið (RÚV). Bæði almennt og frá eigin bæjardyrum. Hann ræddi m.a. nýframkomið fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra og benti á að samkeppni einkarekinna fjölmiðla á Íslandi við þennan risa í boði skattgreiðenda væri ómöguleg. Markmið frumvarpsins væru því marklaus.

Ekki væri unnt að líta hjá því að RÚV fengi fimm milljarða króna í forgjöf á ári og engar ölmusur ráðherrans næðu að vinna það upp og bæta stöðu frjálsra fjölmiðla. Þá tæki RÚV til sín um helming auglýsingatekna í sjónvarpi í krafti útbreiðslu, sem kostuð hefði verið af almannafé:

Hvernig getum við keppt við svoleiðis apparat? Það er ekki hægt og þess vegna leysir frumvarp menntamálaráðherra ekki vanda einkarekinna fjölmiðla. Þetta er plástur sem fyrst og fremst gagnast litlum fjölmiðlum en ekki stóru miðlunum.

Heiðar sagði fjárþörf RÚV óseðjandi, sem birtist á ótal sviðum. Þannig væri stofnunin nánast að tæma Kvikmyndasjóð með því að fara í kringum reglur. Nefndi hann í því samhengi að það hefði sótt þangað endurgreiðslu vegna Áramótaskaupsins, sem væri eiginlega efni í skaupið!

Þetta síðastnefnda er raunar sérstakt athugunarefni, því RÚV hefur sótt í sig veðrið sem ríkisvæddur meðframleiðandi efnis, en um leið leitað styrkja úr opinberum sjóðum, tekur við fjármunum með báðum lúkum og getur þannig haft líf sjálfstæðra kvikmyndagerðarmanna í höndum sér, líkt og fram hefur komið hjá Samtökum iðnaðarins.

Þetta er allt athugunarefni og þó að Heiðar sé ekki þekktur fyrir neina tæpitungu, þá tók hann alls ekki of sterkt til orða. 

***

Þá að fjölmiðlafrumvarpi Lilju. Fjölmiðlarýnir hefur áður fjallað um þær hugmyndir, en jafnan bundið vonir við að lokaútgáfa frumvarpsins yrði skynsamlegri og réttlátari. Frumvarpið veldur hins vegar fullkomnum vonbrigðum og ekki verður séð að tillit hafi verið tekið til athugasemda við frumvarpsdrögin, svo nokkru skipti. Bitamunur en ekki fjár, eins og þeir segja í Framsóknarflokknum.

***

Í frumvarpi Lilju um breytingar á fjölmiðlalögum, er lagt til að stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla verði tvíþættur, en árlegur kostnaður er metinn 520 milljónir (í drögunum var gert ráð fyrir 350 milljónum). Þar mun meira koma í hlut hinna stærri fjölmiðlafyrirtækja en upphaflega var ætlunin, en þar ræðir um Morgunblaðið, Fréttablaðið og Sýn.

Styrkir til fjölmiðla verða tvíþættir samkvæmt frumvarpi Lilju. Annars vegar endurgreiðslustyrkur á allt að 25% af tilteknum hluta kostnaðar af ritstjórnarstörfum, þó með 50 milljóna króna þaki á hverjum miðli. Hins vegar styrkur, sem nemi allt að 5,15% af launum starfsfólks á ritstjórn í lægra tekjuskattsþrepi. Sá kostnaður er talinn um 170 milljónir króna, en endurgreiðslurnar um 350 milljónir, samtals um 520 milljónir á ári. Menn geta svo ímyndað sér hvort þau útgjöld hækki eða lækki á komandi árum.

Fjölmiðlarýnir getur þó ekki stillt sig um að árétta þá hugmynd að taka upp blaðamannaafslátt af tekjuskatti, líkt og sjómenn nutu svo lengi. Það er vond hugmynd, en ekki jafnvond og sú að gera útgefendur áskrifendur að fjármunum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

***

Markmiðið með frumvarpinu er að sögn að efla hlutverk ríkisins, hvað fjölmiðlaumhverf­ið varðar, og styrkja rekstrarumhverf­ið, en í frumvarpinu felist meðal annars fyrstu skrefin í átt að því umhverfi, sem þekkst hafi á Norðurlöndunum um árabil.

Nú er vandséð að fyrir því hafi verið sérstakt ákall að efla hlutverk ríkisins við fjölmiðlun. Þau lönd, þar sem ríkisvaldið skiptir sér mest af fjölmiðlun, þykja fæst til fyrirmyndar. En í ljósi þeirra umsvifa, sem ríkið hefur nú þegar á fjölmiðlamarkaði, bæði í fréttaflutningi og dagskrárgerð, þá blasir við veruleg hætta á einsleitni í fjölmiðlun (og er hún þó ekki lítil fyrir), ef ekki verra. Og norræna tilvísunin er fjarstæðukennd, þar selja ríkisfjölmiðlar ekki auglýsingar.

Fjölmiðlarýnir er í engum vafa um góðan ásetning ráðherrans, en það er nú svo að æ sér gjöf til gjalda. Og ekki síður útgjalda fyrir skattborgara.

***

Það er einstaklega mikilvægt að fréttamiðlar séu ekki háðir fjárveitingavaldinu. Þeir mega ekki vera beiningamenn í forstofunni hjá ráðherra eða fjárlaganefnd. Það er engu fyrirtæki eða atvinnugrein hollt, en fjölmiðlum og fjölmiðlun beinlínis óhollt. Hvernig eiga þeir að geta veitt stjórnvöldum trúverðugt aðhald ef þeir þurfa a.m.k. einu sinni á ári að leggjast á bæn við fætur þeirra?

Svo er þetta auðvitað líka á hinn veginn. Segjum að frumvarpið verði að lögum, en eftir næstu kosningar verði næstum öllum ljóst að lögin eru til óþurftar. Hvaða stjórnmálamaður mun þora að leggja til að fjölmiðlaölmusurnar verði aflagðar, sem þá mun stefna fjölda miðla í hættu, sem aftur mun tryggja honum látlausa gagnrýni styrkþeganna?

***

Hinn stóri og augljósi galli á frumvarpinu er þó að þar er í engu tekið á hlutverki eða tekjustofnum Ríkisútvarpsins, sem þar er í hlutverki hins hvíta fíls í postulínsbúðinni, svo myndhverfingum sé mixað.

Varla þarf að eyða orðum á lesendur Viðskiptablaðsins að millifærslukerfi á vegum hins opinbera, til að styðja einstök fyrirtæki eða atvinnugreinar, er af hinu illa. Það leiðir óhjákvæmilega til sóunar og skapar freistnivanda, skekkir samkeppni og dregur úr vali neytenda. En eykur val og vald stjórnmálamanna.

jórnmálamanna. Þetta síðastnefnda er stóra hættan, því frjálsir, óháðir og ósmeykir fjölmiðlar (aðrir en Viðskiptablaðið, auðvitað) eiga alveg nógu bágt fyrir. Þar skiptir engu hvað Lilja er góð manneskja, það er verið að búa til tæki til þess að stjórnmálamenn geti skakkað leikinn á fjölmiðlavellinum. Og segir sögu að það er ekki byrjað að fjalla um frumvarpið, en þegar búið að kynna fyrirætlanir um að fjölga hjá Fjölmiðlaeftirlitinu, gagnslausustu og ógagnlegustu ríkisstofnun landsins.

Frumvarpið er afleitt og því þurfa þingmenn að hafna.