*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 13. október 2014 14:44

Æðstu ráðamenn Japans kynna sér jarðhitann

Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hélt á dögunum erindi í Japan um reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita.

Ritstjórn

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hélt á dögunum erindi í boði Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, um reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita. Þetta kemur fram á vefsvæði Orkuveitunnar.

Innovation of Cool Earth forum var yfirskrift ráðstefnunnar sem Abe og Taishiro Yamagiwa, orku- og iðnaðarráðherra Japans, efndu til í Tókíó. Til hennar var boðið vísindafólki og stjórnendum fyrirtækja sem talin voru geta lagt heimamönnum gott til í orku- og umhverfismálum. Á meðal þeirra voru reglubundnir fyrirlesarar á helstu jarðhitaráðstefnum sem haldnar eru og var Bjarni fenginn til að segja sögu Íslendinga.

Í erindi sínu rakti Bjarni ávinning Íslendinga af nýtingu jarðhitans í samanburði við kolefnaeldsneytið sem hann leysti af hólmi. Hann fór sérstaklega yfir þær áskoranir sem nýtingunni fylgja, ekki síst umhverfismálin.