Þeir sem eiga enn nóg af aurum ættu að líta til manngerðu Pálmaeyjanna tveggja, Jumeirah og Jabel Ali, í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þar er enn hægt að fá þokkalega villu fyrir svona 1,5 milljónir til 10 milljónir dollara eða sem svarar 125 til 834 milljónum króna. Einnig er hægt að fá minni íbúðarholur á bilinu 15 til 170 milljónir króna.

Hver einasta villa á Pálmaeyjum hefur sína einkaströnd og að sjálfsögðu sundlaug. Þá eru mörg húsanna þannig að hægt er að leggja snekkjunni í bakgarðinum. Mögulegt er að velja úr ólíkum húsagerðum sem hönnuð eru af heimsþekktum arkitektum. Öll tækni er eins og best verður á kosið, háhraða nettenging, kapalsjónvarp og að sjálfsögðu 24 stunda öryggisvöktun af sjó. Húsunum fylgir líka aðgangur að klúbbaðstöðu svæðisins fyrir lítinn pening. Þá er stutt í stórverslun sem staðsett er í nágrenninu fyrir ríka fólkið og þar er einnig þvottahús, snyrtistofur, hárgreiðslustofur, klæðskerar og önnur þjónusta.

Þessar stærstu manngerðu eyjar heims eru gjarna nefndar áttunda undur veraldar. Sagt er að hægt sé að sjá þær frá tunglinu, en ekki er þó vitað til að nokkur einasti maður hafi getað staðfest þá fullyrðingu af eigin reynslu.