Að sögn Þorsteins Guðjónsonar, forstjóra Ferðaskrifstofu Íslands, hefur aðeins ein skíðaferð verið felld niður hjá Úrval Útsýn. Um er að ræða ferð sem átti að vera 14. janúar.

Sumir farþegar sem áttu bókað þá verið færðir yfir á áætlunarflug. Þorsteinn tók fram að þeir sem svo kysu hefðu fengið endurgreitt en flestir hefðu kosið að færa sig yfir á aðrar dagsetningar.

„Það er ekki sanngjarnt að segja að það sé verið að fella niður skíðaferðir okkar í janúar. Að öðru leyti en þessu verðum við með vikulegar ferðir en janúarmánuður hefur alltaf verið erfiðastur. Líka í venjulegu árferði,” segir Þorsteinn í samtali við Viðskiptablaðið.

Að sögn Þorsteins verða skíðaferðir til Alpanna á vegum Úrvals Útsýn 24. janúar, 31. janúar og svo vikulega í febrúar. ,,Það eru á annað þúsund manns sem ætla að fara út á skíði í janúar og febrúar þannig að það má ekki lesa of mikið út úr þessari einu ferð.”