Mexíkóska flugfélagið Aeromexico og Boeing hafa náð samkomulagi um bætur vegna kyrrsetningar 737 MAX véla vélagsins. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Bætist flugfélagið í hóp annarra félaga sem náð hafa samkomulagi við Boeing vegna vélanna en í síðasta mánuði höfðu bæði Southwest Airlines og Turkish Airlines náð samkomulagi við Boeing. Þá hefur Icelandair einnig tvisvar gert samkomulag við Boeing.

Líkt og í tilfelli hinna flugfélaganna gaf Aeromexico ekki upp hve há bótaupphæðin sé en greindi þó frá því að það ætti í áframhaldandi viðræðum við Boeing. Í tilfelli Turkish Airlines hafði tyrkneska dagblaðið Hurriyet greint frá því að upphæðin sem félagið hafði fengið greitt fyrir 12 kyrrsettar vélar næmi 225 milljónum dollara.