*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 15. nóvember 2019 11:55

Æsifréttir og ríkisvæðing fjölmiðla

Þingmaður Miðflokksins hugsar til starfsmanna Samherja sem horfa á stríðsfyrirsagnir.

Ritstjórn
Gunnar Bragi Sveinsson er þingmaður og varaformaður Miðflokksins.
Haraldur Guðjónsson

„Þeir og aðrir sem að fyrirtækinu standa eða starfa hjá því eiga fjölskyldur, börn sem skilja ekki orðin sem notuð eru eða hvers vegna fjölskyldufaðirinn eða móðirin blandast inn í þá umræðu sem búin var til með æsifréttastílnum.“

Þannig skrifa Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og varaformaður Miðflokksins, í grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Gunnar segir fréttaflutning Ríkisútvarpsins og Stundarinnar af Samherjamálinu vera í æsifréttastíl og sérstakt samband virðist vera milli fjölmiðlanna.  „Ríkisútvarpið og Stundin hafa áður sængað saman og þá matreitt málin eftir eigin höfði til þess eins að gera hlutina enn verri,“ skrifar Gunnar Bragi.

„Ef til vill telja einhverjir fjölmiðlar það skyldu sína að matreiða fréttir í sem mestum æsifréttastíl ef heildarmyndin er ekki nógu hneykslanleg. Þá er ekki spáð í neitt annað en áhorfstölur, lestur, flettingar og „klikk“ á vefsíðum. Það kemur einnig fyrir að einstaklingar sem þrá lítið annað en athygli fái mikið pláss án þess að nokkuð sé í raun að frétta og þá loka óvandaðir fjölmiðlar augunum fyrir hræsni viðkomandi þar sem tilgangurinn helgar meðalið,“ segir Gunnar og bætir síðar við. „Æsingur fjölmiðilsins til að ná athyglinni er stundum svo mikill að annað skiptir ekki máli. Athygliskeppnin er eins og aurskriða sem engu eirir og síst sannleikanum sem kannski kemur í ljós seint og um síðir.“

Gunnar segir þó fréttaflutning af málinu hafa rétt á sér. „Á þá ekki að upplýsa um það sem miður fer eða þegar líkur eru á einhverju broti? Jú, svo sannarlega en hvernig það er gert skiptir máli.“

Niðurlag greinarinnar fjallar Gunnar um fyrirhugaða „ríkisvæðignu“ fjölmiðla. „Miðflokkurinn lagði m.a. fram tillögu um að hætt yrði við að ríkisvæða fjölmiðla á einkamarkaði en stjórnarflokkarnir leggja til að 400 milljónir króna renni til miðla á einkamarkaði. 

Galin hugmynd þegar ríkið er nú þegar að setja 5 þúsund milljónir króna í ríkisrekinn fjölmiðil. Það að reyna að koma öllum fjölmiðlum á ríkisspenann minnir óþægilega á samfélög þar sem stjórnvöld reyna að stýra öllum fjölmiðlum. Fjölmiðlar verða að geta starfað án ríkisstyrkja. Miðflokkurinn mun á næstunni kynna hugmynd að því hvernig efla megi einkarekna fjölmiðla án þess að binda þá á ríkisjötuna.“