Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði VIðskiptablaðsins. Í viðtalinu ræðir hann meðal annars um fyrirhugaða hlutafjáraukningu félagsins.

„Stjórn og stjórnendur Ljósleiðarans, ásamt móðurfélaginu Orkuveitu Reykjavíkur sendu erindi á eigendur félagsins –  Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð –  að það væri æskilegt að breyta fjármagnsskipan félagsins með því að ráðast í hlutafjáraukningu,“ segir Erling Freyr.

„Verðbólga og hátt vaxtarstig hefur verið að bíta þetta félög eins og önnur. Markmiðið með breyttri fjármagnsskipan er að félagið verði betur í stakk búið til að standa undir því mikilvæga samkeppnishlutverki sem Ljósleiðarinn gegnir á fjarskiptamarkaði. Mikilvægi þess hefur aukist í kjölfar sölunnar á Mílu til Ardian, ekki síst í ljósi þess að yfirvöld gáfu viðskiptunum grænt ljós 15. september 2022, þó með skilyrðum. Við höfðum þegar brugðist við m.a. með því að fá aðgang að svokölluðum NATO-hring ásamt samningum við Farice, Nova og núna síðast við Sýn um þjónustu á landshring og þar með heildsölumarkaði fyrir stofnlínur,“ bætir hann við.

Boltinn sé nú hjá eigendunum sem skoði nú með hvaða hætti möguleg hlutafjáraukning fari fram. „Þetta gæti mögulega endað sem blanda af hlutafjáraukningu og lánum. Eigendur ráða hvort og hvernig þetta verður gert. Eigendur vilja auðvitað vanda vel til verka við þessa ákvörðun. Ljósleiðarinn er sterkt félag og eigendur eru full meðvitaðir um hve verðmæt eign það er.“ Spurður um fjárhæð hlutafjáraukningarinnar kveðst Erling Freyr ekki geta sagt til um endanlega fjárhæð eins og staðan sé í dag. „Við lögðum til að bjóða fjárfestum að kaupa allt að 40% hlut í félaginu en það er auðvitað í höndum eigenda að taka endanlega ákvörðun um þetta.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.