Unnið er að því í fjármálaráðuneytinu að setja saman frumvarp sem kveður á um að innstæður í bönkum verði tryggðar upp að 100 þúsund evrum. Stefnt er á að leggja frumvarpið fram á Alþingi í vetur og aflétta fullri ábyrgð á innstæðum sem innleidd var í tengslum við setningu neyðarlaga í október árið 2008. Fram kom í hádegisfréttum RÚV að svipað frumvarp hafi verið lagt fram á Aolþingi í nóvember árið 2010 en ekki verið afgreitt. Breytingin nú er í samræmi við evrópska tilskipun um innstæðutryggingar þar sem innstæður einstaklinga upp að 100 þúsund evrum eru tryggðar.

Fram kom í viðtali við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í hádegisfréttum RÚV að samhliða frumvarpinu verði aflétt yfirlýsingu um allsherjarábyrgð á innstæðum frá 2008.

„Við viljum koma eðlilegu ástandi á. Það fylgir því að yfirvöld draga til baka ábyrgð a innstæðum,“ sagði hann.