Unnið er að leiðum til að losa heimili og rekstrarfyrirtæki undan gjaldeyrishöftum og sjá til þess að þau snúi fyrst og fremst að fjármálaviðskiptum eftir því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Í umfjöllun blaðsins segir að stefnt sé að því frumvarp verði lagt fram síðar í þessum mánuði um breytingar á lögum um gjaldeyrishöft þannig að afnám þeirra verði bundið efnahagslegum skilyrðum í stað ákveðins tíma eins og áður hefur komið fram að þverpólitísk sátt ríkji um.

Nefnd fulltrúa allra þingflokka sem vinnur að hugmyndunum mun þá leggja til að Seðlabankinn flýti sér hægt í að veita undanþágur fyrir þrotabú gömlu bankanna til gjaldeyrisviðskipta.

Í frétt blaðsins segir að nefndin vinni einnig að leiðum til að koma á umhverfi frjálsra fjármagnsflutninga fyrir heimili og rekstrarfyrirtæki eins fljótt og auðið er. Með því eigi að reyna að móta tillögur um hvernig hægt verði að afmarka höftin við fjármálaviðskipti. Samkvæmt heimildum blaðsins eru það helst aflandskrónur og endurgreiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna sem höftin eiga að ná til áfram.