Kínverski seðlabankinn (PBOC) hefur tilkynnt að öll viðskipti með rafmyntir séu ólöglegar og hyggst ráðast í aðgerðir á þessum markaði. Þetta kom fram í yfirlýsingu seðlabankans um viðmiðunarreglur stjórnvalda vegna aðgerða gegn viðskiptum með rafmyntir og hættur vegna spákaupmennsku. Bloomberg greinir frá.

„Fjármálastofnanir og aðrar greiðslustofnanir geta ekki boðið þjónustur til starfsemi og rekstur tengdum sýndargjaldmiðlum,“ segir í yfirlýsingu sem birtist á vefsíðu bankans í dag.

Allar rafmyntir, þar á meðal bitcoin og tether, eru ekki valdboðsgjaldmiðlar (e. fiat currencies) og mega því ekki skiptast um hendur á mörkuðum, að því er kemur fram í yfirlýsingu kínverska seðlabankans. Allar færslur tengdar rafmyntum, þar á meðal viðskipti á erlendum mörkuðum, eru því ólöglegar að mati seðlabankans.

Bitcoin hefur fallið um ríflega 3% í morgun en gengi rafmyntarinnar stendur nú í 43,1 þúsund dölum.