Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur ætlar að beita sér fyrir byggingu 2.500-3.000 leigu- og búsetuíbúða á næstu þremur til fimm árum. Bygging íbúðanna er í samræmi við kosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.

Verið er að kynna samstarfssáttmála Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata í rafstöðinni í Elliðaárdal.

Meðal þess sem á að gera samkvæmt samstarfssamningnum er:

  • Stofnað verði embætti erindreka gagnsæis og samráðs sem vinnur með stjórnkerfis- og lýðræðisráði að verkefnum þess.
  • Gjaldskrár verði samræmdar og einfaldaðar. Á árinu 2015 verður fjármagn til skóla- og frístundasviðs aukið um 100 mkr. og árið 2016 verða settar 200 mkr. til viðbótar til lækkunar á námsgjöldum í leikskólum. Einnig verði teknir upp systkinaafslættir þvert á skólastig.
  • Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar verði uppfærð og endurskoðuð, þ.m.t. hlutverk mannréttindaskrifstofu og mannréttindaráðs.