*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 2. desember 2020 11:51

Ætla að bjóða lægstu föstu vextina

Íslandsbanki lækkar bæði verðtryggða og óverðtryggða vexti tveimur vikum eftir vaxtalækkun Seðlabankans.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Íslandsbanka eru í Norðurturninum við Smáralind í Kópavogi.
Haraldur Guðjónsson

Útlánavextir Íslandsbanka munu lækka um allt að 0,25 prósentustig 4. desember næstkomandi og innlánsvextir vextir haldast að mestu leyti óbreyttir. Þar með tekur vaxtalækkun Íslandsbanka gildi fjórum dögum eftir að Landsbankinn lækkaði breytilega vexti. Bæði Íslandsbanki og Landsbankinn hækkuðu fyrr í nóvember vexti á nýjum lánum á föstum vöxtum.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína 18. nóvember síðastliðinn um 0,25 prósentustig, eða fyrir tveimur vikum síðan. Íslandsbanki segir að með lækkuninni nú muni hann áfram bjóða lægstu fasta vexti almennra húsnæðislána á bankamarkaði, bæði óverðtryggðra og verðtryggðra.

Óverðtryggðir kjörvextir bankans, það eru lánsvextir til fyrirtækja, eru sagðir í tilkynningu lækka um 0,20 prósentustig, en breytilegir vextir húsnæðislána eru hins vegar sagðir lækka um 0,10 prósentustig.

Í dag eru óverðtryggðir breytilegir vextir bankans (ekki viðbótarlán) 3,50%, að því er lesa má á vef Aurbjargar, svo þeir lækka um 0,10 prósentustig. Hins vegar eru óverðryggðir breytilegir vextir Landsbankans 3,3%. Verðtryggðir breytilegir vextir bankans eru nú 2,70% svo þeir ættu að fara niður í 2,60% miðað við ofangreint.

Fastir vextir bankans munu haldast óbreyttir, en þeir verðtryggðu eru því eftir sem áður 2,05%, en óverðtryggðir fastir vextir Íslandsbanka haldast óbreyttir í 4,10%. Þar með eru þeir lægstu slíku vextir sem bankarnir bjóða en Frjálsi lífeyrissjóðurinn býður nokkuð lægri óverðtryggða fasta vexti eða 3,85% samkvæmt Aurbjörgu, en LV lægri verðtryggða fasta vexti eða 2,01%.

Loks lækka yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja um allt að 0,25 prósentustig, auk þess sem Ergo bílalán og bílasamningar lækka um 0,15 prósentustig. Innlánsvextir haldast að mestu leyti óbreyttir en nokkrir reikningar bankans lækka um 0-0,25 prósentustig.