Þróunarfyrirtækið Margildi ehf. og þekkingarfyrirtækið Mannvit hf. hafa gert samstarfssamning í tengslum við undirbúning byggingar nýrrar verksmiðju til framleiðslu á gæðalýsi úr uppsjávarfiski.

Nýja verksmiðjan mun fullvinna hrálýsi úr loðnu, síld og makríl til manneldis. Fram til þessa hefur hrálýsi og fiskimjöl úr fyrrnefndum fisktegundum verið unnið sem hráefni til fóðurgerðar fyrir dýraeldi svo sem lax- og silungaeldi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Afkastageta fyrsta áfanga verksmiðjunnar verður um 10.000 tonn á ári og áætluð aukning útflutningsverðmætis lýsis fyrrnefndra fisktegunda allt að 3-4 milljarðar á ári. Gert er ráð fyrir að byggingu fyrsta áfanga verksmiðjunnar ljúki á fyrri hluta árs 2016 og annars áfanga tveimur árum síðar. Með öðrum áfanga verksmiðjunnar er ráðgert að tvöfalda afkastagetuna og möguleikar eru á enn frekari stækkun þegar fram líða stundir. Þannig muni skapast amk. 70 ný störf á sviði framleiðslu, rannsókna og þróunar.