Ingvar Unnsteinn Skúlason, eigandi Klappa Development, gefur lítið fyrir viðvaranir Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar . um að ekki sé til næg orka til að hægt verði að drífa áfram frekari stóriðju á Norðurlandi-vestra. Jón segir að „útilokað" sé að hægt væri að byggja álver á svæðinu á næstu árum vegna skorts á raforku.

Ingvar segir að stjórnvöld hafi gefið fyrirheit um að iðnaðaruppbygging á Norðurlandi-vestra yrði tryggð. Fulltrúar kínverska fyrirtækisins NFC, sem sér um byggingu álversins, eru staðráðnir í að halda áfram með sín áform og hyggjast fara af stað á næstu mánuðum, þrátt fyrir aðvaranir um orkuskort.

Ingvar telur líklegt að álverið verði fýsilegur fjárfestingakostur fyrir íslenska lífeyrissjóði þegar fram líða stundir. „Þess vegna tel ég það að það gæti komið upp sú staða þegar verkefnið er orðið klárt til fjárfestingar að þessir aðilar hefðu áhuga á því að skoða þetta. En það ræðst allt af hagkvæmni verkefnisins og þeirri ávöxtun sem það getur boðið uppá," segir hann í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.