Þeir Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, eigendur Viking Heliskiing og Scandic Guides, hafa ákveðið í samstarfi við erlenda fjárfesta að hefja byggingu á glæsilegu lúxus hóteli rétt við Grenivík í Eyjafirði.

Viðskiptablaðið sagði frá áætlunum um byggingu hótelsins fyrir tveimur árum síðan , en þá var það félagið NIHI undir forystu hins suðurafríska James McBride, sem hefur verið áberandi í hótelrekstri víða um heim undanfarna áratugi, sem vann að verkefninu ásamt Björgvin.

Hótelið, sem hefur fengið heitið Höfði Lodge, verður 5500 fm að stærð með 40 herbergjum, þar af fjórum svítum, ásamt bar, veitingastað, heilsurækt, funda- og ráðstefnusal og allri annarri þjónustu.

Sérstök áhersla verður lögð á afþreyingar ferðamennsku fyrir hótelgesti og í boði verður meðal annars þyrluskíðun, fjallaskíðun, fjallaferðir, hjólaferðir, snjósleðaferðir, gönguferðir, hvalaskoðun, hestaferðir og öll almenn skot- og stangveiði.

Staðsetning Höfða Lodge er sögði í fréttatilkynningu vera ævintýri líkast en hótelið mun rísa fyrir ofan 50 metra háan klettavegg á Þengilhöfða sem gengur út í austanverðan Eyjafjörðinn. Þaðan er útsýnið stórbrotið samspil milli hafs og fjalla, með óhindrað útsýni til mynnis Eyjafjarðar og yfir á Tröllaskagann.

Einungis er um 25 mínútna akstur til Akureyrar og mun Höfði Lodge því styðja enn frekar við uppbyggingu ferðaþjónustu á Norðurlandi sem og að stuðla að enn frekari þörf á auknu millilanda flugi um Akureyrarflugvöll. Stefnt er að opnun Höfða Lodge í árslok 2022 og er áætlað að byggingaframkvæmdir hefjist næstkomandi vor.

Höfði Lodge lúxushótel á Þengilhöfða
Höfði Lodge lúxushótel á Þengilhöfða
© Aðsend mynd (AÐSEND)