Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra að heimila Íbúðalánasjóði að veita Félagsstofnun stúdenta 90% lán með 3,5% vöxtum til að byggja 95 íbúðir í Brautarholti 7 í Reykjavík. Byggingarkostnaður er áætlaður 1,4 milljarðar króna. Miðað við það hljóðar lán Íbúðalánasjóðs til framkvæmdanna upp á 1.260 milljónir króna. Ríkissjóður niðurgreiðir lánið sem nemur mismuninum á 3,5% vöxtum og almennum útlánsvöxtum sjóðsins.

Fram kemur í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu að árið 2011 var sambærileg heimild veitt sem gerði Félagsstofnun stúdenta kleift að byggja hátt í 300 íbúðir í Vatnsmýrinni fyrir einstaklinga og pör. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdirnar nam um fjórum milljörðum króna. Íbúðirnar verða allar teknar í notkun fyrir lok þessa árs.