„Við erum að tala um það að draga úr sveiflunum meira en við höfum gert og stuðla að því að gengi krónunnar víki ekki mjög hratt frá því sem það við um þessar mundir,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Hann sagði á fundi seðlabankans þar sem gerð var grein fyrir vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans vísbendingar um að óvissa um gengisþróun komandi missera sé að halda uppi verðbólguvæntingum og hamla því að verðlagning aðlagist núverandi stigi gengis og þeirri styrkingu sem hefur átt sér stað. Af þeim sökum muni Seðlabankinn grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að jafna sveiflur á gengi krónunnar.

„Þessar aðstæður telur Peningastefnunefnd skapa forsendur fyrir því að Seðlabankinn geti komið inn báðum megin, ekki síður að bankinn mun reyna að stilla saman hans eigin viðskipti og þá möguleika sem hann hefur til að stýra gjaldeyrisviðskiptum annarra,“ sagði Már og vísaði til þess að góðar líkur séu taldar á því að töluvert gjaldeyrisinnstreymi verði hér í sumar.

„Við munum kaupa og það en áskiljum okkur rétt til þess að draga úr daglegum sveiflum með ýmsum hætti og nota stýringu til að hjálpa til við markmiðið. Það er ljóst að þetta er eitthvað sem er ekki óháð skilyrðum. Verði verulegar breytingar á ytri skilyrðum þjóðarbúsins þá yrði þessi stefna tekin til endurskoðunar,“ sagði hann en benti á að gjaldeyriskaupin verði ekki regluleg heldur taktískt í ljósi þess hvað aðrir eru að gera á sama tíma.