Talsverð eftirspurn var eftir 7,5% hlut spænska ríkisins í bankanum Bankia. Þrír bankar á Spáni sáu um söluna í gær. Financial Times segir forsvarsmenn bankanna þriggja hafa gert ráð fyrir því að selja hlutinn á einum degi. Slík var hins vegar eftirspurnin eftir hlutnum úr röðum fjárfesta að hlutirnir komust allir í hendur nýrra eigenda á innan við klukkukstund. Hluturinn fór á 1,35 milljarða evra eða sem svarar til 1,58 evra á hlut.

Spænska ríkið er stærsti hluthafi Bankia með 68% hlut en það þurfti að leggja bankanum til 22 milljarða evra til að forða honum frá því að fara á hliðina í eftirmála bankahrunsins. Financial Times segir Bankia jafnframt holdgerving banka- og fasteignabólunnar á Spáni, ekki síst fyrir þær sakir að bankinn tapaði 19,2 milljörðum evra árið 2012. Annað eins hefur ekki sést í fyrirtækjasögu Spánar . Þá þurfti að leggja bankanum til aukið eigið fé til að halda honum á floti. Spænskir ráðherrar þurftu því að fara bónleið til Brussel og óska eftir 100 milljarða evra björgunarláni til að koma bankakerfinu á réttan kjöl.

Nýir stjórnendur hafa tekið við rekstri Bankia síðan þetta var og hafa þeir verið lofaðir fyrir góðan árangur í starfi.