*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 21. maí 2020 14:53

Ætla að eyða milljarði á hverju ári

Stjórnvöld boða áætlun til 2023 um að rannsaka samfélagslegar áskoranir, loftlagsbreytingar og fjórðu iðnbyltinguna.

Ritstjórn
Árni Sæberg

Í nýrri áætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna, með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, verður einum milljarði króna varið á hverju ári til ársins 2023 í Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Er fjárhæðinni ætlað að styðja við rannsóknir og nýsköpun á því sem kallað eru samfélagslegar áskoranir.

Þær þrjár svokallaðar samfélagslegar áskoranir sem hafa verið valdar í forgang eru:

  1. loftslagsbreytingar og sjálfbærni
  2. heilbrigðisvísindi og velferð
  3. fjórða iðnbyltingin

Forsætisráðherra kynnti, ásamt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, áætlunina á fundi í gær. Jafnframt var sagt frá aðgerðaráætlun um fjórðu iðnbyltinguna sem og um frekari áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpun og vísindum.

Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar nær yfir stefnumótandi áætlanir þar sem um er að ræða tímabundinn forgang á fjármagni. Verkefni skulu unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rannís.

Ríkisstjórnin hefur jafnframt samþykkt aðgerðaáætlun sem miðar að því að nýta þau tækifæri sem fjórða iðnbyltingin felur í sér til bæta lífskjör og auka velsæld.

Aðgerðaáætlunin felur í sér 27 aðgerðir sem stjórnvöld munu vinna að á komandi misserum. Hún er unnin af verkefnisstjórn sem forsætisráðherra skipaði í júlí 2019 og byggir á ýtarlegri greiningu á þeim tækifærum og áskorunum sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag.

Unnið er að því innan Stjórnarráðsins að hrinda tillögum verkefnisstjórnarinnar í framkvæmd. Sumt snýr að innviðum stjórnkerfisins, annað að því að efla stofnanir og sjóði sem vinna eiga að frumkvöðlastarfi og nýsköpun. Mikilvægt er að móta stefnu Íslands í málefnum gervigreindar, eins og verkefnastjórnin bendir á í skýrslu sinni. Þetta verður meðal helstu verkefna íslensks samfélags á komandi árum.

Þá hefur verið sett á laggirnar þvervísindalegt rannsóknarsetur Margrétar Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um hafið, loftslag og samfélag.

Leggur danski Carlsbergsjóðurinn 500 milljónir króna til setursins, íslenska ríkið 140 milljónir króna og Rannsóknasjóður 100 milljónir króna í tilefni af 80 ára afmæli Danadrottingar og 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta lýðveldisins.
Rannsóknarsetrið mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands. Áhersla verður lögð á að ráða unga vísindamenn að verkefninu.