Til stendur að fækka veiðisvæðum og veiðistöngum í Ytri-Rangá og lækka verðið, að sögn Karls Eyjólfs Karlssonar, framkvæmdastjóra Heggöy Aktiv, norska félagsins sem hefur tekið ána á leigu. Morgunblaðið greindi frá því í dag að norska félagið muni greiða um hundrað milljónir á ári til veiðifélagsins og að samningurinn komi til endurskoðunar árið 2015.

„Við fréttum að samningar væru að renna út og að veiðifélagið væri jafnvel að leita að nýjum leigutaka. Við sjáum mikla möguleika í ánni og þótti þetta spennandi. Við viljum gera nokkrar breytingar á veiðifyrirkomulaginu, t.d. með því að fækka veiðisvæðum og stöngum. Þá viljum við lækka verðið til veiðimanna.“ Hann segir að þetta sé nógu stórt verkefni í bili og að félagið stefni ekki á að taka fleiri íslenskar ár á leigu.

Heggöy Aktiv á og rekur veiðihús í Norður-Noregi þar sem félagið er með stangveiði og einnig jarðir nálægt Bergen og er það með sjóstangveiði. Heggöy er systurfélag Bergen Aktiv, sem er skot- og stangveiðiverslun í borginni. Karl Eyjólfur er framkvæmdastjóri beggja félaga.

Karl Eyjólfur var lögreglumaður hér á Íslandi en flutti til Noregs árið 2008 þar sem kona hans var að fara í læknanám. „Við fluttum í raun út korteri fyrir krísu. Ég ætlaði fyrst að fá vinnu sem lögreglumaður úti, en það ferli var svifaseint og ég endaði þess í stað sem framkvæmdastjóri þessara fyrirtækja.“