Fyrir þremur árum síðan opnuðu Hemmi (Hermann Valgarðsson) og Valdi (Valdimar Geir Halldórsson) Nýlenduvöruverzlun. Í dag reka þeir lítið ferðaþjónustuveldi í miðborg Reykjavíkur og eru ekki hættir að byggja það upp. Þeir segjast hafa nýtt þau tækifæri sem hrunið bauð upp á til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og telja fullt af tækifærum vera fyrir góðar hugmyndir að vaxa á Íslandi í framtíðinni.

Eina fyrirtækið í eigu Hemma og Valda sem er með skýr framtíðarplön er Backpackers. Nú er unnið að því á fullu að standsetja Akureyri Backpackers í göngugötunni í höfuðstað Norðurlands. Það á að opna vorið 2012.

Valdi: „Eftir að við opnuðum hér í Reykjavík þá vorum við alltaf með þá hugmynd að þetta yrði ekki eina Backpackers-hostelið á Íslandi.“

Hemmi: „Það er í raun eina fyrirtækið sem við eigum í sem er pínulítið planað.“

Valdi: „Það sem gerðist var að við eignuðumst húsið sem Backpackers er í á mjög skömmum tíma. Það varð til þess að þetta fyrirtæki var orðið stærra heldur en við ætluðum til að byrja með. Það varð þess valdandi að við fórum að athuga með möguleikanna á að færa starfsemina líka út fyrir borgina. Við erum í dag ferðaskrifstofa og stór partur af tekjunum okkar kemur beint frá sölu á skipulegri ferðasölu frá okkur og öðrum. Svo erum við líka upplýsingamiðstöð og gistirými. Við erum því að senda fólk út um allt land og höfum fundið fyrir því að á vissum stöðum vantar gistingu við hæfi fyrir það. Sérstaklega í þessum verðflokki.“

Valdi: „Fólk hefur verið að biðja sérstaklega um ákveðna staði og við finnum alveg fyrir því að við munum í framtíðinni halda áfram þar til að við lokum ákveðnum hring. Þangað til að við stígum næsta skref þá verður þetta það síðasta. En hugmyndin er að þetta verði aðeins stærra. Okkar ferðasala byggist þannig upp að fólk er að borga miklu minna fyrir gistingu en meira fyrir afþreyinguna. Þetta fólk vill allt. Við erum með okkar eigin ferðaskrifstofu og við seljum því ferðir beint til fólks erlendis.“

Ítarlegt viðtal er við Hemma og Valda í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð.