Norðurál Grundartanga og norska lofthreinsifyrirtækið Ocean GeoLoop AS hafa undirritað viljayfirlýsingu um föngun kolefnis, CO2. Með samstarfinu er stefnt að því að álframleiðsla Norðuráls verði að fullu kolefnishlutlaus. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Með tæknilausnum okkar og góðri samvinnu við Norðurál ættum við að geta náð því markmiði að draga úr alveg úr kolefnislosun frá álframleiðslu. Umrædd tækni styðst við vatnsaflsvél sem nýtir CO2 frá álverinu til raforkuframleiðslu sem skilar sér síðan í sjálfvirkri kolefnistökulausn fyrir Norðurál,“ segir Odd-Geir Lademo , forstjóri Ocean GeoLoop.

Norðurál er meðal stærstu álvera í Evrópu með yfir 300.000 tonna framleiðslu á árs grundvelli.

„Við leggjum áherslu á að starfsemi okkar sé í sátt við umhverfið. Við erum nú þegar leiðandi hvað varðar kolefnisfótspor fyrirtækja. Við erum því ákaflega ánægð að fá tækifæri til að bæta þessari umhverfisvænu lausn við því hún færir okkur nær markmiði okkar um kolefnishlutleysi,“ segir Gunnar Guðlaugsson , forstjóri Norðuráls.

Fanga 100% af CO2 losun með hreinni aðferð

Að sögn norska fyrirtækisins býr GeoLoop lausnin til að fanga kolefni yfir þeim eiginleika að CO2 aðskilnaðurinn er 100% hreinn, getur fangað 100% af CO2 og þarfnast ekki sérstakrar aðlögunar eftir tegund útblásturs. Búist er við að kolefnisföngunarferlið muni styðjast við e-Loop sem er sértæk vatnaflsvél sem gefur möguleika á að nýta lághita til raforkuframleiðslu.

Viðskiptablaðið fjallaði um Ocean Geoloop og ræddi við stofnandann Hans Gude Gudesen í haust. Auk framangreindrar tækni hefur fyrirtækið hefur þróað lofthreinsiver úti á sjó en áætlað er að hver stöð geti fangað upp undir eina milljón tonna af CO2 á hverju ári.

Sjá einnig: Ísland verði fyrst þjóða kolefnishlutlaus

Íslenska ríkisstjórnin skrifaði nýlega undir viljayfirlýsingu um samstarf við Ocean GeoLoop og North Tech Energy sem fer fyrir tækninni á Íslandi. Skipaður var vinnuhópur með fulltrúum fjögurra ráðuneyta með það að markmiði að flýta leyfisferlum og kanna möguleg áhrif á vistkerfi sjávar og sannreyna afkastagetu stöðvanna. Geir Hagalínsson er framkvæmdastjóri North Tech Energy.