*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 7. mars 2015 11:16

Ætla að fjárfesta fyrir þrettán milljarða króna

Á næstu fimm árum ætlar Orka náttúrunnar að fjárfesta fyrir þrettán milljarða króna.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fjárfestingaráætlun Orku náttúrunnar (ON), dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, hljóðar upp á þrettán milljarða króna á næstu fimm árum. Umhverfismál skýra að stærstum hluta fjárfestingar árin 2017 til 2019 - gangi áætlunin eftir. Kemur þetta fram í Fréttablaðinu í dag.

Stærsta einstaka verkefnið er lagning Hverahlíðarlagnar frá borholum við Hverahlíð á Hellisheiði að Hellisheiðarvirkjun, en ON heldur utan um orkuframleiðslu OR. Verkið er þegar hafið en mestur þungi framkvæmda er nú í ár; frágangi mun ljúka 2016. Um 2,5 milljarðar renna til þess verkefnis á árinu en fjárfestingin alls er áætluð tæpir fjórir milljarðar króna.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir að áætlunin miði að því að sinna helst tveimur þáttum; áframhaldandi orkuöflun og umhverfismálum. Undir orkuöflun fellur Hverahlíðarlögnin, en þegar líður á tímabilið eru umhverfismálin í forgrunni. Verkefnin snúa að því að draga úr hveralykt og mengun frá Hellisheiðarvirkjun og því að skila vinnsluvatni aftur niður í jarðhitageyminn.