*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 16. desember 2013 11:03

Ætla að fljúga fjórum sinnum til Manchester

Flugferðum easyJet til Manchester verður fjölgað á næsta ári.

Ritstjórn

Áætlunarflug easyJet á milli Íslands og Manchester í Englandi verður aukið frá og með febrúar næstkomandi þegar flogið verður fjóra daga vikunnar í stað tveggja nú. Fjölgunin markar ársafmæli Manchester-flugs easyJet en ástæða hennar er fyrst og fremst miklar vinsældir flugleiðarinnar. Forráðamenn breska flugfélagsins telja að eftirspurnin sé ekkert að minnka.

Flogið verður til Manchester allt árið um kring á þriðjudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum. Ódýrasta fargjaldið aðra leiðina í febrúar og mars er þessa stundina um 8.500 kr. 

easyJet, sem er eitt stærsta flugfélag Evrópu, flýgur nú til fjögurra áfangastaða frá Íslandi allan ársins hring: London, Manchester, Bristol og Edinborgar og í apríl hefst beint flug til Basel í Sviss. easyJet reiknar með að flytja um 250 þúsund farþega til og frá Íslandi á næsta ári en þá mun easyJet fljúga allt árið um kring 15 flug á viku til 5 áfangastaða frá Íslandi. easyJet flytur meira en 60 milljónir farþega á hverju ári á yfir 600 flugleiðum, víðs vegar um Evrópu.

Stikkorð: easyJet