Tap upp á 24 milljónir danskra króna var á rekstri færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er talsverður viðsnúningur á milli ára en á sama tíma í fyrra nam hagnaður félagsins tæpum 38 milljónum danskra króna.

Í uppgjöri Atlantic Petroleum kemur fram að tekjur námu 328 milljónum danskra króna á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við rúmar 437 milljónir á sama tím í fyrra. Tekjurnar fást m.a. af olíusölu en meðalverð á tunnum var 109,5 dalir á tunnu. Rekstrarhagnaður nam á sama tíma 169,7 milljónum danskra króna borið saman við 180 milljónir á fyrstu mánuðum síðasta árs.

Fyrirtækið áætlar að framleiða á bilinu 725 til 800 þúsund tunnur af olíu á árinu.

Eins og fram kom í morgun hefur stjórn Atlantic Petroleum óskað eftir því að taka hlutabréf Atlantic Petroleum af markaði í Kauphöllinni og skrá þau á markað í staðinn í kauphöllina í Osló í Noregi.