Fyrirhugaðar eru endurgerðir og viðbætur við lóðir 6 grunnskóla og eins leikskóla í borginni á þessu ári. Borgarráð samþykkti í dag að bjóða þessar framkvæmdir út og er kostnaður áætlaður 350 milljónir króna.

Boðnar verða út framkvæmdir við endurgerð lóða við Árbæjarskóla, Breiðholtsskóla, Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla, Ölduselsskóla og leikskólans Stakkaborgar. Þá verður boðið út boltagerði við Kelduskóla.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að stefnt er að því að framkvæmdum við þessar skólalóðir verði lokið fyrir upphaf næsta skólaárs, eða í ágúst 2014. Á árunum 2010-2013 hefur  Reykjavíkurborg staðið fyrir endurgerð á leik- og grunnskólalóðum fyrir samtals 1.131 milljón króna.