Félagið Skakkiturn ehf., sem á og rekur verslanir Epli.is hér á landi var rekið með 158 milljóna króna hagnaði í fyrra, samkvæmt ársreikningi félagsins. Það er aukning frá fyrra ári þegar hagnaður var af starfseminni upp á 134 milljónir króna. Félagið flytur inn og selur Apple-vörur bæði sem heildsali og smásali hér á landi.

Tekjur félagsins jukust úr 2.537 milljónum króna í 2.859 milljónir eða um 12,7% milli ára. Samkvæmt skýrslu stjórnar félagsins var greiddur arður upp á 70 milljónir króna til eina hluthafans Báshyls á árinu 2013. Það félag er í eigu þeirra Bjarna Ákasonar og annars félags sem er í eigu Valdimars Grímssonar.

Gert er ráð fyrir að greiddur verði arður upp á 100 milljónir króna til hluthafa á árinu 2014.