*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 17. maí 2013 08:05

Ætla að greiða næstum 600 milljónir í arð

Stjórn Haga leggur til að hluthafar fái sem nemur 50 aurum á hlut á arð. Félag þeirra Árna Hauks og Hallbjörns fær 48 milljónir.

Ritstjórn
Finnur Árnason, forstjóri Haga, þegar hlutabréf voru skráð í Kauphöllina.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Stjórn Haga leggur til við aðalfund að hluthöfum verði greiddur arður vegna afkomunnar í fyrra sem nemur 50 aurum á hlut. Hagnaður Haga nam rétt tæpum þremur milljörðum króna í fyrra. Arðgreiðslan nemur samkvæmt því tæpum 586 milljónum króna. 

Gildi lífeyrissjóður er stærsti hluthafi Haga með 10,32% hlut. Miðað við það fengi lífeyrissjóðurinn 62,8 milljónir króna í arð. Lífeyrissjóður starfsmanna A-deild á svo 8,38% hlut og fær lífeyrissjóðurinn miðað við það 51 milljón króna í arð. Þá er félagið Hagamelur, félag þeirra Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar, þriðji stærsti hluthafi Haga. Félagið á samkvæmt hluthafalista 7,86% hlut í Högum. Miðað við það nemur arðgreiðslan til félag þeirra Árna og Hallbjörns rúmum 47,8 milljónum króna.

Fram kemur í tillögum fyrir aðalfund Haga sem halda á 7. júní næstkomandi, að samþykki aðalfundur tillöguna skuli arðréttinidasagur vera 12. júní næstkomandi. Arðleysisdagur, þ.e. sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf félagsins án réttar til arðs vegna reikningsársins 2012/13 verður því 10. júní 2013, eða næsti viðskiptadagur eftir aðalfund. Útborgunardagur arðgreiðslu verður 26. júní 2013, að því er fram kemur í tillögunum.

Stikkorð: Hagar