Félagið Nordic Networks, sem er að mestu leyti í eigu stofnenda sinna og fagfjárfestasjóðsins Brú Venture Capital, vill leggja gagnasæstrengi frá Íslandi til Noregs og Írlands. Verkefnið hefur verið í undirbúningi frá því síðasta haust í samstarfi við norska og írska aðila. Fjárfestingin væri um 70-90 milljónir dollara, jafnvirði 9-11 milljarða króna.

Upphafleg áform félagsins, sem hét áður Emerald Networks, voru þau að leggja streng milli Írlands og Bandaríkjanna með hliðartengingu til Íslands. Strengurinn milli Írlands og Bandaríkjanna var lagður og heitir hann Aqua Comms, en er í rekstri annarra aðila. Hliðartengingin til Íslands hefur ekki verið lögð ennþá.

Stefna á Evrópumarkað

Að sögn Gísla Hjálmtýssonar, framkvæmdastjóra Thule Investments sem er umsjónaraðili Brú Venture Capital, myndi hliðartenging við strenginn yfir Atlantshafið kosta um 60-70 milljónir dollara. Af þessu sést að hægt er að fá beina tengingu við Skandinavíu og Írland fyrir um 15-20% meiri fjárhæð en að fá tengingu við strenginn yfir Atlantshafið, auk þess sem hagræði væri af því að deila kostnaðinum með Norðmönnum og Írum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .