Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mun að sögn Josh Earnest loka Guantanamo Bay áður en hann kveður Hvíta húsið. Lokun Guantanamo Bay var eitt af kosningaloforðum Obama. Það er þó hægara sagt en gert að loka slíku fangelsi.

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, hefur einnig lýst yfir áformum um að loka fangelsinu áður en kjörtímabilinu lýkur. Tillögurnar hafa þó fengið litlar sem engar undirtektir frá Repúblikönum, sem telja það mikla nauðsyn að halda í fangelsið.

Um 61 fangi er í fangelsinu um þessar stundir. Nýlega sendi herinn þó 15 fanga til Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Fangelsið hefur hlotið mikla og neikvæða athygli í gegnum árin og hafa Bandaríkjamenn verið stórlega gagnrýndir af mannréttindasamtökum.

Fangelsið var sett á fót árið 2002 undir stjórn varnarmálaráðherrans Donald Rumsfeld. Markmið Guantanamo var að vista, yfirheyra og dæma fanga sem taldir eru ógna öryggi Bandaríkjanna stórlega.