Bruggsmiðjan Kaldi stefnir að því að auka framleiðslu sína um 36% á næstu tveimur árum auk þess að opna bjórspa og veitingastað í Eyjafirði. Þetta segir Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í samtali við Markaðinn á Fréttablaðinu. Viðskiptablaðið fjallaði um þessa hugmynd í fyrra þegar fyrirtækið var heimsótt.

„Við erum að stækka örlítið núna og erum að byggja 50 fermetra hús og láta smíða fyrir okkur þrjá nýja fjögur þúsund lítra tanka. Við sjáum svo fyrir okkur að geta bætt aðstöðuna fyrir átöppun og róbota og farið í örlitla stækkun í tönkum á næsta ári. Við ætlum svo að klára þessa stækkun árið 2016 og þá vil ég fara í bjórspa-ið,“ segir Agnes.

Agnes segir bjórinn gríðarlega hollan fyrir húðina og brugghúsið sé við sjóinn. Þannig muni þau nota hreinsaðan sjó og Kalda til að búa til spa-paradís. „Við fáum hingað gríðarlega mikið af gestum en það vantar meiri afþreyingu á staðinn og því ætlum við að fara í þessar framkvæmdir.“