*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 20. október 2020 15:30

Ætla að rækta suðræna ávexti á Íslandi

Lausnamót matarfrumkvöðla á Suðurlandi valdi verkefnið Ómangó sem sigurvegara. Mótið haldið hringinn í kringum landið.

Ritstjórn
epa

Verkefnið Ómangó, sem ætlar að gera Íslendingum kleift að rækta suðræna ávexti með ræktunartönkum, var sigurvegari í svoklluðu lausnamóti, eða hakkaþoni, sem haldið var á Suðurlandi um helgina, en Viðskiptablaðið sagði frá því þegar verkefnið fór af stað.

Hacking Hekla er fyrsta lausnamótið fyrir landsbyggðina sem ferðast hringinn í kringum landið. Fyrsti viðburðurinn fór fram um helgina í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitafélaga og Nordic Food in Tourism og var unnið með sjálfbærni í matartengdri nýsköpun.

Níu teymi skráðu sig til leiks og þróuðu áfram áhugaverð verkefni og kynntu fyrir dómnefnd. Sigurvegari Hacking Hekla / Suðurland var Ómangó sem mun rækta suðræna ávexti á Íslandi með frumuræktun.

Hacking Hekla / Suðurland fór fram um helgina þar sem níu verkefni voru þróuð áfram í gegnum samsköpunarlausnina Hugmyndaþorp. Teymin höfðu aðgang að reynslumiklum mentorunum meðan á viðburðinum stóð ásamt fyrirlestrum sem veittu þeim innblástur í þróun verkefnanna. Sigurvegarar Hacking Hekla / Suðurland eru:

  • 1. sæti - Ómangó

Verkefnið mun gera íslendingum kleift að rækta suðræna ávexti með frumuræktun og mun nota til þess hátækni ræktunartanka. Örugg, sjálfbær og heilbrigð leið til að auka öryggi og fjölbreytni matvæla á Íslandi.

  • 2. sæti - Bringing Back the Milkman

Mjólkurbíllinn var mikilvægur samfélagslegur hlekkur hér áður fyrr og flutti mjólk og fréttir á milli bæja. Við viljum endurvekja mjólkurbílinn og keyra um Suðurland og flytja vörur framleiðanda og frumkvöðla til neytenda.

  • 3. sæti - Leifur Arnar

Verkefnið ætlar sér að minnka matarsóun á hlekkjum virðiskeðjunnar þar sem fyrirtæki liggja. Vandamálið verður leyst með smáforriti og miðlægu uppvinnslu eldhúsi.

Ný lausn þróuð til að halda utan um lausnamótið

Vegna Covid-19 fór lausnamótið alfarið fram á netinu og nýttu þátttakendur nýja samsköpunarlausn „Hugmyndaþorp” við þróun verkefnanna. Arnar Sigurðsson frá sprotafyrirtækinu Austan mána þróar lausnina samhliða Hacking Hekla lausnamótinu.

Á þeim tímum sem við lifum verður sífellt mikilvægara að virkja krafta úr sem flestum áttum samfélagsins inn í nýsköpun og þróun sem getur tekist á við áskoranir framtíðar. Með hugmyndaþorpinu er sköpunarferlið gert opið, gagnsætt og hvetjandi.

„Það var frábært að sjá Hugmyndaþorpið lifna við með þátttakendum Hacking Hekla. Inni í þvi deildu þátttakendur vandamálum, hugmyndum og verkefnum og lögðu grunn að opnu vistkerfi nýsköpunar fyrir Suðurlandið," segir Arnar Sigurðsson hjá Austan mána.

Mögulegt er að skoða verkefnin sem tóku þátt í lausnamótinu inni á vefsíðunni hugmyndaþorp.hackinghekla.is
Samstarfsaðilar Hacking Hekla / Suðurland voru Samtök sveitafélaga á Suðurlandi og Nordic Food in Tourism. Þátttakendum verður í kjölfarið boðið upp á vinnusmiðju um næstu skref og hvert teymi fær þar að auki ráðgjafatíma með ráðgjöfum SASS.

„Við erum virkilega ánægð með hvernig til tókst um helgina og hlökkum til að sjá sem flest af þessum verkefnum verða að veruleika og viljum leggja okkar að mörkum með því að veita þessa ráðgjöf,” segir Ingunn Jónsdóttir, ráðgjafi hjá SASS.

Nordic Food in Tourism er norrænt samstarfsverkefni sem er ætlað að vekja athygli á þeim verðmætum sem liggja í staðbundinni matvælaframleiðslu og matargerð bæði fyrir heimamenn og erlenda gesti.

„Sköpunargleðin og krafturinn þegar fólk vinnur að hugmyndum sínum með eins miklum eldmóði og raun bar vitni þessa helgi er auðvitað bara magnað fyrirbæri,” segir Ásta Kristín Sigurjónsdóttir hjá Íslenska ferðaklasanum & Nordic Food in Tourism.

„Það er einstakt að fá tækifæri á að kynnast þessum hugmyndum og eldhugunum á bakvið þær og vettvangur eins og Hacking Hekla gefur þessum aðilum tækifærið á að miðla, læra og þróa hugmynd að raunverulegri þjónustu eða vöru.“

Hacking Hekla lausnamótið er nú formlega farið af stað á ferðalagi sínu um landið og leitar nú að samstarfsaðilum á Vestfjörðum og Norðurlandi en þangað er ferðinni heitið á næsta ári.

Markmið Hacking Hekla er að draga fram í sviðsljósið það öfluga frumkvöðlastarf sem á sér stað á landsbyggðinni og tengja saman frumkvöðlasenurnar í dreifbýli og þéttbýli á Íslandi. Sömuleiðis á verkefnið að virkja skapandi hugsun og styðja við nýsköpun og fjölgun atvinnutækifæra á svæðinu.