Í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 8 milljarða króna tekjum af sölu eigna. Bent er á í þingskjali með frumvarpinu til fjárlaga að nú sé ljóst að þau áform að afla ríkissjóði 7 milljarða króna tekna með sölu eigna á árinu 2012 gangi ekki eftir.

Gert var ráð fyrir þeim tekjum í síðustu fjárlögum og eru ný fjárlög sögð taka mið af því.

Í morgunkorni Íslandsbanka í vikunni segir að ýmsar forsendur frumvarpsins séu æði bjartsýnar, þar á meðal tekjur af eignasölu og eiginfjárframlög. Gert er ráð fyrir að eignasala muni skila ríkinu 8 milljarða tekjum á hverju ári næstu þrjú ár. Meðal eigna ríkisins eru hlutir í viðskiptabönkunum þremur.