Yfirlögfræðingur Íslandsbanka segir ekki útilokað að bankinn fari í skaðabótamál gegn þeim Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Byrs, og Ragnari Z. Guðjónssyni, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Byrs, vegna hlutdeildar þeirra í Exeter-málinu. Skaðabótamál er hafið gegn Styrmi Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP Banka.

Þeir Jón og Ragnar voru í júní í sumar dæmdir í fjögurra ára fangelsi vegna málsins sem snýst um lánveitingu Byrs upp á um einn milljarð króna til að kaupa stofnfjárbréf þeirra og annarra stjórnarmanna í Byr. Það var MP Banki sem kallaði eftir auknum tryggingum fyrir lánum sem bankinn hafði veitt til kaupa á bréfunum og þrýsti á að lánin yrðu greidd upp. Þeir voru dæmdir vegna umboðssvika í málinu.

Máli Styrmis var hins vegar vísað aftur í hérað.

Íslandsbanki tók Byr yfir eftir að sparisjóðurinn fór í þrot.

DV fjallar um málið í dag og segir Jón Þorstein hafa nýverið hafið afplánun dómsins á Kvíabryggju. Bent er á að skaðabótakröfu Byrs hafi verið vísað frá héraðsdómi þegar þremenningarnir voru sýknaðir í undirrétti. Málinu hins vegar verið áfrýjað. Blaðið hefur eftir Tómasi Sigurðssyni, yfirlögfræðingi Íslandsbanka, að frekari líklegra en ekki að bankinn reyni að sækja skaðabætur þótt eignastaða þeirra sé orðin slík að kröfurnar séu ekki innheimtanlegar.